Tuesday, November 14, 2006

I love Lucie

Eftir að hafa flutt frá Shuberti, gist eina nótt hjá Hannesi, og tékkað sig inn á annað gistiheimili, voru Jónsi og Óli alveg til að fara að finna sér þeirra eigin íbúð. Þá hringdi Lucie frá Happy house rentals, sem Shubert hélt að væri techno-klúbbur þegar strákarnir spurðu hann um leiðbeiningar þangað klukkan 3 á miðvikudegi, og sagði þeim að hún væri búin að finna íbúð sem stæðist gæðakröfur þeirra. Strákarnir tóku gleði sína á ný, enda hvert tækifæri gott tækifæri til að hitta Lucie. Svo voru þeir líka spenntir að sjá íbúðina. Fyrir utan íbúðina hittu þeir Lucie, sem var jafn ánægð að sjá þá eins og þeir voru að sjá hana. Þeir djókuðu aðeins í henni og hittu svo leigusalann, Lönu. Hún var viðkunnaleg miðaldra kona, sem talaði ekki ensku, en virtist líka vel við strákana. Hún brosti til þeirra en talaði við Lucie eins og hún væri að skamma táningsdóttur sína. Lana sýndi þeim íbúðina og útskýrði hvert einasta smáatriði vel og vandlega, eins og þetta væri hennar síðasta tækifæri til að tala. Lucie reyndi eftir fremsta megni að þýða allt sem Lana sagði en þegar Lana var búin að tala í 3 mínútur um vatnshitarann sneri Lucie sér að strákunum, benti þeim á hitarann, og sagði þreytulega;
Lucie: Push that button.
Strákarnir vissu að þetta var dama sem væri efni í eiginkonu, svo þeir ákváðu að bjóða henni í partý. Þeir vildu hins vegar ganga frá greiðslu fyrir íbúðina áður en þeir færu að bjóða fólki þangað í partý, en Lana, sem virtist ekki nýta sér þjónustu banka, vildi bara fá greitt í reiðufé og strákarnir þurftu því að taka pening út af kortunum sínum. Þeir komust hins vegar að því að það eru limit á því hvað hægt er að taka út á viku, og að þeir voru búnir með það limit fyrir vikuna. Þeir þurftu hins vegar að borga fyrsta mánuðinn, tryggingu fyrir leigusalann, og svo þóknun fyrir Lucie. Þeim tókst að skrapa saman fyrir tryggingunni en fengu frest fyrir hinu. Hræddir um að líta út eins og aumingjar sem gætu ekki borgað, ákváðu strákarnir að bíða með að bjóða Lucie í partý, að minnsta kosti þangað til þeir væru búnir að borga henni, svo þeir borðuðu loft, og fóru að sofa.
Í næsta bloggi:




Strákana dreymir að Lucie eigi kærasta.

No comments: