Tuesday, November 14, 2006

Czech out the Thai



Eftir að hafa velt því fyrir sér hvort þeir ættu kannski að fá sér húsvagn, ákváðu Jónsi og Óli að fá sér að borða. Orðnir létt þreyttir á kínverskum mat ákváðu þeir að breyta til, og fengu sér tælenskan. Á tælenska staðnum tók á móti þeim ung dama sem virtist sjá það á þeim að þeir væru útlendingar því hún hóf strax að tala við þá á ensku. Hún vísaði þeim til borðs, hjálpaði þeim að velja rétti við hæfi, og vann hugi þeirra og hjörtu, með heillandi framkomu, og aðlaðandi útliti. Þeir gátu ekki staðist að spjalla aðeins við hana og komust að því að hún var sænsk, og talaði ekki tékknesku. Hún sagði þeim hitt og þetta um sína hagi og þegar hún kom með reikninginn hafði hún skrifað á hann; Thank you! Strákunum fannst þetta fallega gert og íhuguðu að skilja eftir símanúmerin sín á reikningnum, sem þeir gerðu síðan ekki, og fóru. Á leiðinni heim tóku þeir leigubíl frá leigubílafyrirtækinu AAA, sem undir venjulegum kringumstæðum telst með þeim traustari í Prag, en sem strákarnir óskuðu seinna þetta kvöld að héti frekar AA. Leigubílstjórinn, sem var gamall, átti strax í erfiðleikum með að bakka útúr stæðinu sem hann var í. Stuttu seinna drap hann á bílnum í miðri brekku þar sem hann átti ekki að stoppa en strákarnir veittu því enga sérstaka athygli því Óli var orðinn svolítið fullur og Jónsi var enn að velta fyrir sér hvað thank you-ið þýddi og hvort þeir hefðu átt að skilja eftir númerin, því þegar öllu var á botninn hvolft þá var þessi sænska stelpa helvíti sæt. Þegar leigubílstjórinn stoppaði svo fyrir utan hjá Hannesi, sem hafði verið með þeim allt kvöldið, keyrði hann upp á kant og átti í stökustu erfiðleikum með að leggja. Strákunum fannst þetta orðið fullmikið þó hann væri gamall og væri líka lélegur í að bakka útúr stæðum, sem hann átti greinilega enn erfiðara með að leggja í. Þegar Hannes var farinn útúr bílnum var næsti áfangastaður gistiheimilið hjá Shuberti, sem er nokkurn veginn beina leið frá Hannesi. Þegar leigubílstjórinn tók svo U-beygju á næstu gatnamótum fannst Jónsa og Óla eitthvað bogið við þennan gæja svo þeir stoppuðu bílinn og fóru út. Þegar þeir fylgdust svo með erfiðleikum bílstjórans við að snúa aftur við rann loksins upp fyrir þeim að hann var blindfullur.
Jónsi: Þessi leigubílstjóri er þokkalega out of it.
Óli: Já.
Óli: Förum að sofa.
Í næsta bloggi:


Sænska stelpan hefur uppi á númerinu þeirra, en þeir eru sofandi og vakna ekki við símann.

No comments: